Upplýsingar

Komið þið sæl. Í Orðskviðum, sem er eitt af ritum Gamla testamentisins, er að finna mörg mögnuð vers. En orðskviðir merkir málsháttur eða spakmæli. Eitt þessara spakmæla í Orðskviðum á vel við í kvöld og hljóðar svona: „Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu“ (15.15). Sem sagt, þau sem eru sífellt að kvarta og kveina eiga erfitt með að sjá gleðina og birtuna sem eru allt í kringum okkur. En þau sem láta gleðina og birtuna sem hvílir í hjarta þeirra streyma fram, uppskera veisluhöld. Ég ætla hins vegar ekki að halda því fram að lífið sé ekkert annað en veisluhöld.
Ég tel að stundum sé hægt að líkja lífsgöngu okkar við árstíðirnar, það skiptast á skyn og skúrir. Ágæt kona sagði einu sinni að erfiðu stundirnar geti líka verið nauðsynlegar til þess að minna okkur á þær góðu. Ef allar stundir væru góðar myndu þær fljóta framhjá án þess að við tækjum eftir þeim. Lífsganga okkar flestra er með þeim hætti að alvara lífsins bankar upp á hjá okkur fyrr eða síðar. Það er jafnvel hægt að tala um að það sé í eðli lífsins að mæta erfiðleikum. Það sé hluti af lífinu sjálfu. Við getum þá sagt að skýjabakkar byrgi okkur sólarsýn en vonandi bara um stundar sakir. Einhvern veginn finnst manni stundum að aldrei skíni sólin skærar en einmitt eftir hellidembu. Það er nefnilega þannig að það skiptir miklu máli hvernig við tökum erfiðleikum. Því miður getum við verið í aðstæðum sem við völdum ekki og því síður stjórnað. En við getum engu að síður ráðið miklu um líf okkar og einnig líðan. Mörg okkar eru gædd þeim hæfileika að geta séð hið spaugilega, jafnvel við erfiðar aðstæður. Og við megum ekki gleyma því að við erum í hendi Guðs. Guð vakir yfir okkur og sýnir okkur kærleika. Trúin gefur okkur líka von, traust og öryggi sem við öll leitum eftir en sum okkar, því miður, vita ekki hvert á að leita. Trú er vinátta við Guð, að eiga vinkonu og vin á öllum tímum í lífi okkar, bæði í erfiðleikum og á gleðistundum. Vináttan er okkur dýrmædd og þess vegna er það mikilvægt fyrir okkur að rækta vináttuna við hvert annað og við Guð. Ég trúi því að Guð sé með okkur alla daga og haldi í hönd okkar þegar við fetum lífsins veg.

Um daginn las ég skemmtilega og innilega frásögn sem barnabarn eitt skrifaði og sagði frá mjög trúaðri ömmu sinni, ömmu sem trúði heitt og innilega og setti allt sitt traust á Guð. Einhverju sinni vaknaði amman um miðja nótt við þrusk og það virtist sem einhver óboðinn væri á ferðinni. Amman fór fram úr rúminu til að athuga hvað sé um að vera. Hún gekk um íbúðina en varð ekki vör við neitt. Hins vegar þegar hún leit út um gluggan sá hún ný fótspor í fönninni. Amman vildi kanna málið betur og dreif sig út og gekk í kringum húsið en varð einskis vör. Því fór hún bara aftur inn að sofa, sallaróleg. Næsta dag sagði hún fjölskyldu sinni frá ævintýri næturinnar. Barnabarnið varð alveg dolfallið á brölti ömmunar svona um miðja nótt og sagði henni að skynsamlegra hefði verið að kalla á lögregluna eða einhvern ættingja við þessar aðstæður. Barnabarnið spurði ömmu sína hvort það hafi ekki hvarlað að henni að eitthvað slæmt myndi geta hent hana. Amman leit alveg undrandi á barnabarnið sitt og sagði: Þú, Sara mín sem heitir þessu fallega biblíunafni átt að vita að Guð og englarnir gæta mín. Ég óttast ekkert því að ég veit að Guð er með mér! Persónulega finnst mér dásamleg tilfinning að vita og treysta því að Guð vaki yfir okkur og sé okkur náðugur.

Áðan talaði ég um að sumir hafa þann hæfileika að sjá spaugilega hlið á erfiðum aðstæðum. Um daginn las ég ævisögu Guðrúnar Ásmundsdóttur leikkonu sem hún nefnir Ég og lífið en bókin kom út fyrir nokkrum árum. Þar er sagt frá Göggu Lund söngkonu, sem nú er látin, en hún kenndi mörgum söng og raddbeitingu hér áður fyrr. Sagt er frá því þegar Gagga á níræðisaldri þurfti að fara á spítala vegna lærbrots. Guðrún, vinkona Göggu, fór með henni upp á sjúkrahús og var miður sín af áhyggjum. Hjúkrunarfræðingur, sem var formfestan uppmáluð, tók nákvæma sjúkraskýrslu af Göggu. Hún var m.a. annars spurð að því hvort hún væri gift? „Ekki ennþá, svarði konan á níræðisaldri sem lá lærbrotin í rúminu. Þessu svari átti hjúkrunarfræðingurinn ekki von á og missti samstundis virðuleikasvipinn af andlitinu og hristist af hlátri. Lífreynda konan, sem lá í sjúkrarúminu, vissi að það að grípa til kímninnar er góð leið til að létta spennuþrungið andrúmsloft og það er stundum ómetanlegt að geta hlegið af sjálfri sér.

Við höfum oft fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig annað fólk á að vera í fasi og útliti. Þar eru prestar ekki undanskildir nema síður sé. Fyrir nokkru var eldri dama spurð um það hvað henni hafi fundist um prestinn sem framkvæmdi athöfn fyrir fjölskylduna. Eldri daman lýsti prestinum afar hlýlega og hún var ánægð með hvað presturinn flutti góða ræðu. Einnig tók hún sérstaklega fram hvað presturinn var fagmannleg í allri framkomu. Hins vegar kunni þessi eldri dama bara alls ekki við það að presturinn var með rauðar, naglalakkaðar tær. Það væri hreint ekki prestlegt að vera með lakkaðar tær! Til gamans get ég sagt ykkur frá því að það eru ekki ýkja mörg ár síðan það þótti ekki við hæfi að prestar tækju sér snúning á dansgólfi. Það þótti sem sagt ekki prestlegt. Það var í góðu lagi að sitja borðhald og njóta skemmtidagskrár en um leið og dansinn hófst var kominn háttatími fyrir prestinn.

Í upphafi minntist ég á að orðskviðir minna okkur á mikilægt atriði sem er: Að þau, sem kvarta og kveina, sjá ekki glaðan dag en þau, sem vel liggur á eru sífellt í veislu. En til þess að við megum upplifa það að vera sem oftast í veislu verðum við að hlúa að okkar andlegu líðan. Þannig er engan veginn sjálfgefið hið forna máltæki: „heilbrigð sál í hraustum líkama“. Það er sem sagt ekki nóg að hlúa eingöngu að líkamanum þannig að kroppurinn sé góðri þjálfun. Hin andlega næring er jafn nauðsynleg því að vera í góðu líkamlegu ástandi. Það er mikilvægt að við hlúum vel að okkur og einnig öðru fólki sem er í kringum okkur. Mér finnst gott að hafa hugfast það sem Bjartur í Sumarhúsum sagði: „Því hvað er auður og afl og hús ef engin jurt vex í þinni krús“.

Eitt af því sem flestar manneskjur þrá er lífshamingja. En til þess að öðlast hana er mikilvægt að við séum sátt við okkur sjálf og aðrar manneskjur og við Guð. En sum okkar gera sér hreint ekki grein fyrir því að við sjálf sköpum okkur lífshamingju. Við verðum hins vegar að gæta okkar á því að vera ekki eins og konan sem var svo utan við sig og leitaði í óðagoti að hattinum sínum sem hún var allan tímann með á höfðinu. Mig langar aðeins að nefna mikilvægt atriði sem kvennafræðin hefur bent á en það er að einhverra hluta vegna eiga konur oft erfitt með að gleðjast yfir sér sjálfum eins og þær eru á hverju ólíku æviskeiði. Við megum aldrei gleyma því að við erum fínar og flottar vegna þess að við erum sköpun Guðs. Enda leit Guð yfir sköpun sína og sagði að hún væri harla góð!

Eins og ég talaði um áðan er lífið ekki ein eilífðar veisla og stundum koma tímar þar sem við finnum fyrir mótstreymi og jafnvel það miklu að sum okkar bogna undan andstreyminu. En ég trúi því að Guð sé hjá okkur, líði illa þegar okkur líður illa. Í bókinni Vinátta Guðs minnir Auður Eir okkur á afarmikilvægt atriði sem átti sér stað á föstudaginn langa þegar allt virtist tapað og vonlaust. Jesús var krossfestur og lærisveinarnir voru harmi slegnir. En við megum heldur ekki gleyma því að eftir föstudaginn langa, þennan hræðilega atburð, kom nefnilega páskadagur. Þá birtist ný og undursamleg gleði sem aldrei hefði birst án sorgar föstudagsins. Og einmitt þá sást líka að það sem áður virtist vonlaust hafði þvert á móti aldrei verið vonlaust.

Flest okkar geta verið sammála því að vonin er okkur mikilvæg til þess að lifa af þegar erfiðleikar steðja að. Þess vegna er líka mikilvægt að við séum jákvæð en einnig að við tökum ábyrga afstöðu til lífsins. Spyrjum okkur sjálf: hvaða stefnu ætla ég að taka? Einnig er mikilvægt að spyrja sig: hvað ætla ég sjálf eða sjálfur að leggja af mörkum til þess að ég og aðrir í kringum mig geti verið sem oftast í veislu? Ég óska ykkur öllum Guðs blessunar og góðrar veislu.