Upplýsingar

Elsku Guð, leiddu mig í þessari hugvekju, og kenndu okkur öllum að læra að fyrirgefa og þiggja fyrirgefningu.

Guð gefðu okkur öllum styrk og visku til að meta mátt og miskunn fyrirgefningarinnar.

Þjófur á Nýlendugötu ?
Ég vaknaði í morgun: Míb, míb, míb, míb…þjófavarnakerfi í einhverjum bílnum hafði farið í gang. Það hljóta flestir íbúar við vesturenda Nýlendugötunnar að hafa hrokkið upp, að minnsta kosti rumskað. Æ, hvað þetta var óþægilegt, ætlar þetta ekkert að hætta! Það var ekkert lát á, og það heyrðist míb, míb, míb, í tja, a.m.k. 10 mínútur. Eigandinn hefur eflaust verið á sýningu í Loftkastalanum kvöldið áður og skilið bílinn eftir. Ég og hinir íbúarnir tékkuðum ekkert á því hvort verið væri að ræna úr bílnum, þetta bara gekk og gekk!! Ekki gætti ég að hvað var að gerast, en vonaði að einhver annar eða önnur myndi nú kannski gera eitthvað í málinu. Kannski hefði ég bjargað fartölvu, en það kemur vonandi einhvern tíma í ljós.

30 ára vígsluafmæli og rolukast
Við höfum undanfarið verið að halda upp á 30 ára vígsluafmæli sr. Auðar Eir, lærimóður okkar m/meiru. Það hefur í raun verið afmæli okkar allra, því vígsla hennar braut blað í sögu kvenna á Íslandi. Þrjár ólíkar uppákomur hafa verið í boði: Kvennaferð að Holti í Önundafirði, Hátíðarmessa í Neskirkju og m álþing í Hallgrímskirkju, svona “trílógía”, svo talað sé á tæknimáli! Ég náði að taka þátt í tveimur fyrri, mér til ómældrar ánægju og gleði – en ég var í rolukasti, eins og sr. Auður Eir kallar það, þegar sú þriðja átti sér stað, og fýlu út í allt og alla, en Guð minnti mig svo bara á að ,,eymd er valkostur” – og ekki var ég nú hrifin af þeim valkosti og fegin er ég að vera búin að fyrirgefa öllum sem voru að hrella mig, og sjálfri mér líka.

Kannski Guð hafi verið eitthvað að bralla í mér með fyrirgefninguna, svona ,,uforvarende” som man siger paa Dansk!!

Í ferðinni okkar að Holti í Önundarfirði áttum við góðar og einlægar stundir, stundir þar sem við fyrirgáfum hver annari af glöðu geði allan kjánaskap og væmni, því við gátum komið fram eins og við vorum klæddar. Við áttum miklar hláturstundir. Svona samvera byggir upp og lætur okkur líða þannig að allir vegir séu færir. Við áttum þarna ágætis göngumessu með meiru, en í gönguferðinni okkar komum við að vísu að einu lokuðu hliði. Allar sem ein, á hvaða aldri sem við vorum, klifruðum yfir hliðið því það var kyrfilega læst, hjálpuðum hver annari, og fannst þetta miserfitt, en það hefði auðvitað verið auðveldara ef það hefði verið opið. Við ákváðum að hafa hliðið þar að táknmynd ferðarinnar.

Opið hlið milli Fjólu og Freyju á Fjölnisveginum
Nú ætla ég einmitt að segja eina ,,hliðsögu”, en það er sagan af fullorðnum systrum, þeim Fjólu og Freyju á Fjölnisveginum. Þær bjuggu hlið við hlið í afskaplega sætum húsum. Þeim sinnaðist einn daginn út af einhverju sem skiptir varla máli lengur, held túlípönum, það liðu dagar, og það liðu mánuðir og stífnin jókst, en það leið ekki sú kvöldstund að þær hugsuðu ekki til hver annarar og voru ergilegar og sárar. Þetta virtist ætla að endast þeim út ævikvöldið þessi þrjóska – hvorug vildi biðja hina fyrirgefningar, hvorug vildi rétta fram sáttarhönd, því báðar höfðu þær svo sannarlega rétt fyrir sér. Kannski langaði þær djúpt niðri til þess, en kunnu það ekki.
Dag einn var bankað uppá hjá Freyju, og þar var kominn smiður sem bað um vinnu. Smiðurinn spurði hvort það væri eitthvað sem Freyja vildi láta vinna fyrir sig. Hún tók smiðnum fegins hendi og ákvað að láta hækka girðinguna milli garðanna þeirra, því það pirraði hana alltaf að sjá yfir til Fjólu og sjá túlípanana hennar. Smiðurinn mætti stundvíslega kl. 10 morguninn eftir. Freyja var inni í húsi að hella upp á indælis kaffi til að bjóða smiðnum, og hún heyrði hamarshöggin dynja. Þegar hún kom loksins út rak hana í rogastans, því að komið var hlið á girðinguna í stað hækkunar. Hún rauk út til að fara að skammast, en þá kom Fjóla hlaupandi að hliðinu með faðminn útbreiddan og bros sem lýsti upp öll Þingholtin. ,,Æ, mikið er ég glöð að þú tókst fyrsta skrefið kæra systir…ég bara treysti mér ekki til þess”. Öll þrjóska, stolt og fýla rauk út í veður og vind hjá Freyju einnig og hún þakkaði smiðnum innilega fyrir að taka þetta skref fyrir þær systurnar.

Þetta er einföld saga, en sönn í lífi okkar svo margra. Hún er ekki að segja okkur að við verðum að biða eftir smiðnum, heldur segir hún okkur að það á ekki að sitja á fyrirgefningunni. Fjóla og Freyja voru bara lánsamar að fá hjálp, og stundum gerist það og vissulega þurfti ekki nema eitt hlið til að þær næðu sættum.

Er eitthvað svona hlið sem þú sérð fyrir þér í þínu lífi. Þú getur smíðað það sjálf, því mörg ósýnileg hlið hafa opnað margar gáttir og handan við hliðið geta leynst fagrir túlípanar.

Hugtakið fyrirgefning og saumakonan Guð
Ó hvað ég er búin að velta þessu stóra hugtaki fyrir mér. Fyrirgefningunni – þessari gjöf Guðs – sem virkar frá þér til mín, mín til þín, og á sama hátt frá Guði til okkar og okkur til Guðs, einnig virkar fyrirgefningin, sem skiptir ekki minnstu mál frá ÞÉR til ÞÍN. Það er að gefa og þiggja. Þetta er að vísu svo gagnvirkt, að þegar við þiggjum, þá gefum við um leið til baka, við gefum þakklæti, svo kastast boltinn fram og til baka.

Þessi uppskrift fyrirgefningar hljómar einföld, þegar þetta er sett svona upp, 1 stk. Fyrirgefning 1 stk. Þakklæti… en þarna kemur tregðulögmálið inní með flóknu tilfinningakerfi manneskjunnar, þrjósku, stolti, reiði, sárindi og stundum bara engu þakklæti. Ein aðalforsenda fyrirgefningar er iðrunin. Það er hægt að biðjast fyrirgefningar á svo mismunandi máta, og hvernig við tjáum það skiptir þá miklu máli, og oft mestu. Iðrun þarf að ver í orði sem á borði.

þegar krakkar er þvingaðir til að biðjast afsökunar, er oft sagt stutt og hratt: Fyrirgefðu… og svo snúa þau sér undan. Sá eða sú sem er á hinum endanum finnur ekki mikinn létti eftir svoleiðis fyrirgefningu.

Stundum finnst okkur einhver gera úlfalda úr mýflugu, við höfum nú ekki gert svo stóran hlut af okkur, en við ranghvolfum augunum og segjum ,,Nú fyrirgefðu” … með ákveðinni hneykslan í röddinni, eða við gerum grín að viðkvæmni hins aðilans og segjum hlæjandi fyrirgefðu… og gerum kannski manneskjuna ennþá reiðari útí okkur. Svona dæmi mætti lengi taka, og þá er oft betra heima setið en af stað farið, og það ER heiðarlegra að meina það sem við segjum, og við fáum ekki mikinn frið ef við erum ekki einlæg.

Stórar syndir og smáar
Afbrot eða yfirsjónir geta verið á breiðum skala. Allt frá þeirri yfirsjón að gleyma afmæli einhvers upp í þá synd sem gróft ofbeldi er, stríðsglæpir og níðingsverk. Við getum gert eitthvað viljandi og óviljandi. Af því hlýtur einnig að leiða að fyrirgefningarnar eru misstórar og miserfiðar. Sumar ,,syndir” eru eins og saumspretta, sem þú sjálf getur saumað saman, og svo ég vitni orðrétt í hana móður mína ,,uss þetta er bara saumspretta” þetta er ekkert mál.” Önnur yfirsjón getur verið stærri og öllu illviðráðanlegri, eða þegar skemmdin er eins og eftir rifna flík á gaddavír. Allt er tætt og stórt gat verður eftir. Þá þarf að kalla til flinka saumakonu!!

Það þarf býsna klára saumakonu til að tjasla því saman og setja jafnvel bót yfir. Erum við fær um að fyrirgefa þeim sem drepa börn í gíslingu, eða umskera konur, er það í okkar valdi að fyrirgefa þeim sem beitir ofbeldi, er fordómafullur eða bregst trausti. Er eitthvað sem þú getur gert ?

Hvar kemur svo Guð inn í allt þetta! Guð er saumakonan, sem ræður við erfiðu rifurnar, og bætir, þó við ráðum sjálf við saumspretturnar, svon í flestum tilfellum. Þegar okkur, með okkar breyskleika skortir fyrirgefningarmáttinn, og okkur finnst við ekki með nokkrum lifandi mætti treysta okkur til að fyrirgefa þá getum við varpað því til Guðs. Þegar Jesús var deyjandi MANNESKJA á krossi sagði hann ekki; Ég fyrirgef ykkur, heldur ákallaði Guð um að fyrirgefa fólkinu þar sem það vissi ekki hvað það var að gera. Hann kallaði á Guð föður sinn, við getum kallað á Guð móður, föður, vinkonu, vin, smið eða saumakonu, Guð er þetta allt og miklu meira og er alltaf nálægt.

Fagnaðarerindi fyrirgefningarinnar
Hvar liggur fagnaðarerindi fyrirgefningarinnar ? Það liggur í því að Guð hefur fyrirgefið þér, öllu fólki. Jesús bað um fyrirgefningu okkur til handa. Við sem erum sköpuð í Guðs mynd höfum þann eiginleika að fyrirgefa líka, þó við verðum aldrei jöfn Guði. Guð hefur gefið gjöf og vill að þú þiggir frelsi, fegurð frið og framgöngu fyrirgefningarinnar.

Fagnaðarerindið er um að sleppa sekt þinni, sleppa samviskubiti þínu. Syndir þínar ERU fyrirgefnar – af Guði. stundum burðumst við með samviskubitið eins og þungan bakpoka, ,,Komið til mín”, sagði Jesús, ,,þið öll sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.”, Það er þreytandi að hafa þungar byrðar, þreytandi að burðast með óuppgerðar skuldir og þreytandi að liggja með kökk í hálsinum andvaka langt fram á nætur. Fyrirgefum sjálfum okkur eins og Guð hefur nú þegar gert. Leitum einnig fyrirgefningar samferðafólks okkar.

Hvað sagði Jesús, sem dó sem mennskur maður; ,,Fyrirgefðu þeim því þau vita ekki hvað þau gera.” Á þetta enn við í dag ? Erum við að gera eitthvað í dag sem skaðar náunga okkar og við þörfnumst fyrirgefningar við? Erum við að brjóta mannréttindi ? Við þurfum að vera í sífelldri sjálfsskoðun og endurnýjun, því við hættum aldrei að læra og reyna. Oft er fáfræðin og íhaldssemin svo ríkjandi að ekkert bifast. Við þurfum á feminisma að halda til að brjóta ísinn kalda og harða, fólk sem þorir að beita sér. Við höfum okkar Auði Eir, og svo verð ég að minnast á Kenýsku konuna Wangari Maathai, sem var að fá friðarverðlaun Nóbels!! Þessar konur hafa oft þurft að bíta á jaxlinn og fyrirgefa óréttlæti, eða biðja Guð um það fyrir sína hönd og annara vandamanna, ef út í það er farið.

Þjófavörn og feminismi
Við verðum að vaka, og vera á verði. Við verðum sífellt að biðja Guð um að fyrirgefa okkur fyrir að mismuna konum og körlum, og biðjum Guð að fyrirgefa okkur að setja samkynhneigða sem annars flokks þjóðfélagsþegna. Þjóðfélagsþegna sem fá ekki að vígjast í hjónaband. Við þurfum að biðja Guð að fyrirgefa okkur fyrir brot sem við gerum á hverju öðru, meðvitað og ómeðvitað.

Feminisminn er soldið eins og bílflautan á Nýlendugötunni í morgunsárið. Fólki finnst þetta pirrandi, það er verið að trufla væran blund. En það þarf afl og hávaða til að vekja. Feminisma sem byggir á fyrirgefnngu, réttlæti, frelsun og friði. Feminisminn truflar suma eins og þjófavarnakerfi, en ef einhver er að fara að ræna bílinn þarf ekki að flauta til og vekja? Það þarf að vekja athygli á að það er verið að ræna réttindum og virðingu, af fólki. Vekjum hvert annað úr fáfræði, leitum fræðslu, og forðumst fordóma.

Fyrirgefningin felur það ekki í sér að staðreyndum sé breytt, – alls ekki, það sem orðið er, er ekki hægt að strika út, en hún felur það í sér að við fáum hreina og nýja blaðsíðu í stílabókinni til að skrifa á. Hreina blaðsíðu í sögubókunum okkar, við getum skrifað eitthvað sem ekki þarf að skammast sín fyrir.

Við skulum læra að rétti tíminn til að biðjast fyrirgefningar er á þeim tímapunkti þegar við sjálf áttum okkur á því að við höfum beitt misrétti. Sjálf okkur eða annað fólk. Það er óæskilegt að fresta fyrirgefningu.

Þegar við þurfum að beiðast fyrirgefningar getur orðið ,,fyrirgefðu” staðið fast í hálsinum, og það verður eins og kökkur í hálsinum. Kökkurinn stækkar og stækkar, því miður kyngjum við stundum þessum kekki, og þá eru eftirmálarnir ekki sérlega góðir, kökkurinn kominn niður í maga – og úps… fer ekki lengra með þetta. Það er óhollt andlega og líkamlega að gleypa fyrirgefningu! Og hana nú. Láttu hana vaða, með Guðs hjálp og opnaðu þitt ósýnilega hlið og sjáðu hvort þú verður ekki fislétt og fagnandi á eftir.