Upplýsingar

Í bókinni ÓÐUR LÍFSINS, speki frumbyggja Ameríku, er að finna ýmsan vísdóm um fegurð lífsins, þar stendur m.a.: Í bernsku var mér kennt,“Barnið gott, leiðin til að finna fegurð lífsins er að leita samhljóms í tilverunni. Vertu í samhljómi við allt sem er, og umfram allt, í samhljómi við sjálfa þig. Margt mun drífa á daga þína, sumt gott, annað ekki. – en það eitt að leita sífellt samhljóms verður mótvægi gegn hverjum vanda og færir þér fegurð.“

Við erum sífellt að leita samhljóms í lífinu. Stundum er það svo að okkur reynist erfitt að ljá lífi okkar merkingu. Það kunna að vera ýmsar ástæður fyrir því. Sjálfsmyndin hefur ef til vill krumpast vegna persónulegs áfalls. Við finnum fyrir einmannaleika, depurð, ótta, sektarkennd, reiði,

Við getum átt í erfiðleikum með samskipti, verið undir álagi og streitu allt þetta veldur okkur hugarangri. Við finnum að það hefur eitthvað stíflast innra með okkur. Þegar við erum orðin svo full af hugarangri að örvæntingin er farin að frussa í allar áttir, frussast yfir okkur og aðra þá stöldrum við við og spyrjum: hvernig getum við mætt þessum tilfinningum. Hvað getum við gert best til þess að bregðast við?

Sagan:
Það hafa skiptst á skin og skúrir síðustu vikurnar. Það er alls ekki óvanalegt að það rigni á haustin, enda oft talað um haustrigningar. Svo við þurfum aldeilis ekki að vera hissa eða pirra okkur yfir því að það rigni. Þannig var veðrið um daginn á ósköp venjulegum haustdegi, ekki hundi út sigandi.

Konan og hundurinn virtu þetta orðatiltæki ekki viðlits, ákveðin í að leggja út í veðrið. Hún klæddi sig í pollabuxur fór í regnkápu og gönguskó. Hundurinn dillaði skottinu, sem er félagsleg tjáning, eins og þegar við fólkið tölum saman. Gleðin og eftirvængingin í augum hundsins var einlæg, hann brosti þannig að það sást í tennurnar, gaf þar með til kynna að hann setti veðurfarið ekki fyrir sig.
Konan og hundurinn gengu út í beljandi rigninguna.

Þau voru rétt komin að þakskeggi hússins, þegar konan tók eftir að vatn frussaði í allar áttir frá þakrennunni. Hún beið færis til komast hjá vatnsflauminum sem lak niður úr þakrennunni, en það lánaðist ekki, fékk hún bunina yfir sig, en það skipti svo sem engu máli hún var hvort sem var að leggja af stað út í veðrið. Eitthvað varð að gera, ekki var við það búandi að komast ekki frá húsi nema klæðast pollagalla ef rigndi.

Hún tók þá ákvörðun að ná í stiga, stilla honum við húsvegginn, og príla upp til að líta í þakrennuna. Lauf af trjánum, sandur og sitthvað annað hafði safnast fyrir í rennunum og stíflað þær. Hún náði í litla rauða fötu,setti á sig gúmmíhanska, prílaði aftur upp stigann og byrjaði að hreinsa. Konan renndi hendinni eftir rennuböndunum og fyllti á örskammri stundu fötuna af laufum og sandi, hún gróf hendinni í niðurfallið á rennunni og hreinsaði burtu óhreinindin. Hún fór hringinn í kringum húsið með stigann og fötuna hreinsaði hverja rennu á eftir annarri og naut þess að heyra vatnið sogast niður í hvert skipti sem losnaði um stífluna.

Þegar verkinu var lokið brosti hún með sjálfri sér. Hún var harla ánægð með árangur vinnunar.
Síðan leit hún í kringum sig og hofði á garðinn sinn og sá að það væru fleiri haustverk sem hægt væri að sinna. Það þyrfti að raka lauf af grasflötinni, því hún vissi að grasið vill kafna þar sem mikið lauf liggur. Og best væri að raka laufin sem fyrst. Nú svo þyrfti að huga að útilýsingu fyrir innganginn í þvottahúsið.

Ný tilfinning bærðist með konunni, tilhlökkun um að taka til hendinni og upplifa á ný vellíðan yfir því sem hún gæti gert sjálf. Hún þakkað Guði fyrir þennan dásamlega dag og styrkinn sem hann hefði veitt henni. Fór í gönguferðina með hundinum, sem hafði beðið þolinmóður eftir gæðastundinni, dillaði skottinu af ánægju og brosti svo að sást í tennurnar.

Guðfræðin:
Við höfum heyrt að Guð vinkona okker er sífellt að gera allt nýtt og hún treysir okkur til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og að hjálpar okkur að finna út hvað við eigum að gera þegar við erum í vanda. Vinkona okkar tendrar leiðarljósið í myrkrinu. Hjálpar okkur að losa um stífluna og finna á ný góðu tilfinningarnar sem okkur þykir svo vænt um.

Hugarangur er ekki alslæmt, það hvetur okkur til að láta til skara skríða og getur vísað okkur leiðir til að gera lífið okkar betra. Hreinsa upp dauðu laufin, sandinn og rykið í lífi okkar svo við heyrum á ný hljómfagran vatnsniðinn. Það sem er mikilvægt, er að gefast ekki upp heldur halda áfram að leita og finna sátt og hamingju í lífinu. Stundum tekur það langan tíma en það er þá bara allt í lagi.

Við getum alltaf líkt lífinu við veðurfarið á landinu okkar. Það mun alltaf stytta upp eftir beljandi rigningu og sólargeislarnir brjótast fram hægt og rólega. Lífið er yndislegt og þið eruð yndisleg. Er lífið ekki spurning um viðhorf? Er lífshamingjan fólgin í því að temja sér jákvætt hugarfar?

Jesús er kærleikur og fullur af manngæsku. Jesús er sá sem hjálpar í smáu sem stóru og leiðir okkur inn í lífið á nýjan leik. Gefur okkur líf og opnar dyr til lífsins, þegar okkur finnst við vera lokuð inni – stífluð. – það eina sem við þurfum að gera er að rétta út hendina og biðja. Hjálpaðu mér.
Það er svo mikið satt að Guð gerir allt nýtt og okkur líka.

Dagurinn í dag er sá dagur sem við höfum. Njótum hans með öllum sínum litbrigðum. Verum þau sem við erum.

Friður Guðs sem æðri er öllum skilningi varðveiti hjörtu ykkar og hugsanir í Jesú Kristi. Amen.