Upplýsingar

Til hamingju með afmælið. Kvennakirkjan er 18 ára og ræður sér sjálf. Þess vegna stígum við nýtt skref í kvöld. Nýtt fullræðisskref þessa merka afmælis. Við tölum um það á eftir. . Við fögnum því að vera sjálfráða og enn meira fögnum við því að hafa alltaf verið sjálfráða. Hvað höfum við nú gert í 18 ár í frelsi okkar og gleði? Við höfum verið saman og styrkt hver aðra í trú okkar. Það er trúin á Guð vinkonu okkar sem er ein af okkur, alltaf með okkur, tekur þátt í öllu starfi okkar og gefur okkur hugmyndir. Og ef sumar okkar vilja heldur kalla hana eitthvað annað en vinkonu okkar þá höfum við frelsið og gleðina til að una því prýðilega því engin okkar ræður yfir annarri.

Trúin á Guð vinkonu okkar er trúin á Guð sem kom og var Jesús Kristur sem lifði og dó og reis upp frá dauðum og er hjá okkur. Hann er hún sem kom og er og er alltaf. Og er vinkona okkar. Hvað höfum við gert í vináttu hennar? Við höfum búið til torg þar sem við megum allar vera og allar tala og vinna. Það er torg kvennaguðfræðinnar. Og kvennaguðfræðin tekur til alls sem við gerum, alls lífs okkar. Hún er hversdagsguðfræði um Guð og okkur, allar saman og eina og eina. Og í öllum dögum okkar. Heima og heiman, með öðrum og með sjálfum okkur innst í okkar eigin huga. Þess vegna höfum við haldið námskeið og ráðstefnur um hina margvíslegustu hluti, Biblíuna, gleðina, reiðina, þunglyndið, þjóðfélagið, framfarir, breytingarskeiðið og tískuna og svo miklu fleira. Við tölum sífellt sífellt um lífsgleðina. Og um lífsóttann. Við segjum hver annarri aftur og aftur að mótlætið mæti okkur öllum og lífsgleðin sé ekki í því að sniðganga mótlætið með öllum ráðum heldur að mæta því. Og við viljum hjálpa hver annarri til að mæta því og leysa úr því. Við höfum sagt hver annarri að allar tilfinningar okkar séu eðlilegar, við skulum taka á móti þeim öllum og hjálpa hver annarri að læra að búa með þeim. Svo að við setjumst ekki að í erfiðu tilfinningunum en göngum út úr þeim. Svo að við eigum hugrekkið sem við þurfum til að þora að vera bara svakalega glaðar og njóta daganna sem við getum án þess að óttast að nú fari eitthvað útskeiðis af því að við eigum ekki skilið að gleðjast til lengdar.

Við skulum taka lífið í hendur okkar og vita að Guð heldur utan um okkar hendur. Við skulum treysta því að það er í trúnni á Guð sem við eigum trúna á sjálfar okkur, aðrar manneskjur og lífið. Við skulum vita að þegar við tölum um Guð tölum við um lífið. Og þegar við tölum um lífið tölum við um Guð. Þetta er allt ofurlítið úr guðfræðinni sem við höfum skrifað saman í 18 ár og lifað eftir. Guðfræði okkar verður til í samveru okkar. Í messunum og á námskeiðunum og í ferðalögunum sem við förum saman. Og með hverri okkar í eigin samtölum við Guð sem verða að hugmyndum sem við komum með inn á torgið okkar og gefum hinum. Og þaðan, úr messunum og námskeiðunum og ferðunum, förum við út í mismunandi daglegt líf okkar með hugmyndirnar sem við fengum í samveru okkar. Það var sagt fyrir síðustu aldamót að þunglyndið yrði aðal sjúkdómur þessarar aldar. Þegar við heyrðum það spurðum við hver aðra: Hvers vegna? Og við svöruðum: Af því að það er eitthvað bogið við það sem við færum inn í 21. öldina. Það er eitthvað sem er svo vitlaust að það gerir okkur veikar. Sem gerir okkur öll veik. Og svo tókum við okkur saman um að gera okkur grein fyrir því hvað það getur verið frá okkar sjónarmiði. Og taka því taki. Núna vitum við það sem við vissum ekki þá. Við vitum um óstjórnina og ósómann og hrunið. Um Æseifið og allt mögulegt annað sem við eins og allar aðrar manneskjur heyrum talað um seint og snemma svo að það verður að suði sem við hættum að heyra. Við tökum allar okkar eigin afstöðu. En hver sem hún er þá er það afar líklega satt að við höfum engin áhrif á þessa umræðu. Eða hvað heldur þú? Hvaða áhrif höfum við þá?

Við Kvennakirkjukonur allar saman og ein og ein? Við höfum áhrif, hver í kringum sig, með lífi okkar, framkomu og orðum. Og orðin fara eftir hugmyndum okkar. Og hugmyndirnar fara eftir trú okkar. Það er þess vegna sem við lögðum torg Kvennakirkjunnar fyrir 18 árum og höfum síðan stækkað það og prýtt með trjám og blómum og bekkjum þar sem við setjumst og drekkum kaffi saman. Svo að hver einasta okkar geti farið með vináttu og gleði Guðs út af torginu í hvert skipti sem hún kemur, og dreift því meðal þeirra sem hún hittir. Og hvílt sjálf í því sem hún heyrði og sagði. Í undursamlegri vissu um óendanlega ást Guðs. Svo að hver okkar finni að hún kemur með stórkostlegar gjafir inn á torgið og hinar fara heim með þær. Ég held ekki bara heldur er handviss um að við höfum allar áhrif. Hver um sig hefur áhrif í kringum sig. Með mörgum öðrum, sem við þekkjum kannski ekki, sem hafa líka góð áhrif í kringum sig. Og þegar margir góðir hringir með góðum áhrifum og hugmyndum og gæsku og blessun Guðs eru út um allt þá gerist eitthvað gott. Smátt og smátt gerist eitthvað gott sem breytir heiminum. Þess vegna, góðu Kvennakirkjukonur, göngum við glaðbeittar og friðsælar inn í nýjan tíma 18 ára afmælisins og höldum áfram að fagna lífinu í trú okkar á Guð vinkonu okkar, sem er vinkona okkar hvað sem hún er annað fyrir okkur. Því Guð hefur þúsund andlit. Það er gæfa okkar sem viljum, að þekkja andlit hennar sem vinkonu okkar sem kom og var Jesús, og vita að hún verður alltaf hjá okkur og þarfnast okkar eins og við þörfnumst hennar.

Nú stígum við skrefið. Skrefið á 18 ára afmælinu okkar. Fullveldisskrefið. Það er ekki nýtt skref Kvennakirkjunnar til fullra yfirráða yfir sjálfri sér. Því Kvennakirkjan hefur alltaf ráðið sér. Guði sé lof. Það er ólýsanlega gott að koma í kirkjurnar þar sem við höldum messurnar okkar. Í kvöld var Valdimar kirkjuvörður búinn að kveikja öll ljósin og kveikja á kertum og við sem komum klukkan sjö gengum inn í birtuna. Svo koma Alla og Anna Sigga, og allur kórinn, og Steinunn og fleiri koma og leggja á borðið og setja á könnuna. Og svo komið þið. Ein eftir aðra og við verðum fleiri og fleiri. Það er alltaf jafn yndislegt, svo ef þú vilt fara að koma klukkan sjö ertu velkomin. En í kvöld stígum við nýtt skref. Og samt er það ekki nýtt skref frekar en sjálfstæði Kvennakirkjunnar heldur skref sem við stigum fyrir löngu. Hvaða skref er það þá? Það er skrefið til þess að við tökum allar upp fullvissuna um að við erum allar prestar. Við skulum í kvöld gera þennan veruleika sem við höfum alltaf átt að veruleika sem við fögnum á hverjum degi. Við erum allar prestar. Hverju breytir það fyrir okkur? Ég held að það breyti því sem við leyfum því að breyta. Við þurfum að hugsa um það og tala saman um það. Og vertu nú svo væn að hugleiða það með sjálfri þér þangað til í næstu messu og þá skulum við sameina gleði okkar yfir því að við erum allar prestar.

Hver segir það eiginlega að við séum allar prestar? Guð segir það. Strax í Mósebókunum sagði Guð að við værum prestar. Þið skuluð vera prestar og heilög þjóð, sagði hún. 2. Mós. 19.6. Við erum fólk hennar, fólkið sem er kallað til að bera orð hennar út í hversdaginn. Jesús talaði ekkert um presta. Hann talaði um vinkonur og vini sem væru ljós heimsins og salt. Við erum ljós af því að hann er ljós. Við erum öll ljós og engin okkar skína skærar en hin. Við erum öll jöfn. En Lúter sagði að það skipti sköpum að við værum öll prestar. Hann sagði það af því að prestarnir voru orðnir heldur fyrir í kirkjunni. Páfinn skipaði þeim að prédika á latínu sem engin skyldu og halda boðskap Biblíunnar frá fólkinu. Og það var látið í það skína að prestarnir væru nær Guði en safnaðarfólkið og safnaðafólkið var búið að fá nóg af því að vera annars flokks í kirkjunni. Þetta er sannarlega ekki svona núna því nú eru prestarnir svo flottir eins og auðséð er. En við erum öll ljós og öll jöfn og við eigum öll að boða orðið og lifa í því sjálf. Þess vegna erum við allar prestar. Ekki þarf þú samt messuklæðin sem prestarnir bera. Þau halda áfram að tilheyra prestastéttinni. En hver okkar á okkar eigin prestaskrúða. Þær okkar sem eru læknar og hjúkrunarfræðingar eiga sinn skrúða og kennararnir og kokkarnir og skrifstofukonurnar sinn sem við hinar eigum ekki og þörfnumst heldur ekki af því að hinar eiga hann fyrir okkur. Og allar eigum við okkar eigin fallegu spariföt og hversdagsföt og inniföt og vinnuföt til okkar eigin heimaverka. Þau eru öll prestaskrúði okkar. Hvar sem við erum og hvað sem við gerum erum við prestar sem sinnum preststörfum í vináttu Guðs.

Við erum kallaðar og útvaldar og vígðar í skírninni til að vera prestar í daglegu lífi okkar. Þess vegna býður Kvennakirkjan okkur að koma og taka þátt í því að hugsa nýjar hugsanir um Kvennakirkjuna til að efla hana og gera torg hennar enn fallegra og yndislegra. Þér er boðið að koma á mánudagsfundina og taka þátt í því sem gerist og heitir Byggjum á því sem blómstrar og hún Sveinbjörg okkar Pálsdóttir stýrir. Það er á morgun klukkan hálf sex og alla mánudaga til vors. Vertu innilega velkomin. Við þurfum að hjálpast að við að lifa í köllun okkar. Við hinar þörfnumst þín sem ert prestur okkar og prédikar með nærveru þinni. Og enn og aftur, í kvöld eins og alltaf, þökkum við þér innilega og aftur innilega fyrir að koma. Því nærvera þín er styrkur okkar og gleði okkar og friður. Af því að þú komst eigum við samstöðu þína á morgun. Þegar við förum með gleðina af torgi Kvennakirkjunnar út í hversdaginn og vinnum preststörfin sem við vígðumst til í skírninni. Til hamingju. Amen