Sjáumst hress í haust!

19. júnímessan verður ekki núna. Starf Kvennakirkjunnar hefst af fullum krafti í haust þegar september rennur upp svo fagur eins og alltaf. Þá bíða okkur nýútsprungnar bækur sem við bjóðum hver annarri og þeim sem vilja slást í hópinn. Þær eru alveg að renna sér í prentun. Þær eru til að safna okkur til biblíulestra, um Markúsarguðspjall, Postulasöguna og bréfin og Gamla testamentið. Mikið verður gaman. Látum okkur líða vel í sumrinu og hittumst í haust.

By |15 júní 2021 20:04|Fréttir|

Kraftaverkin – stjörnur í augum – Örhugleiðing sr. Huldur Hrannar

Kraftaverkin – stjörnur í augum

Jesúbarnið í jötunni kallar fram vellíðunartilfinningu hjá mörgum.  Það er birta í kringum það, því himneskt ljós lýsir á það og frá því, og skin frá stjörnunni.  Við fáum stundum stjörnur í augun því við minnumst gleðistunda í æsku, tilhlökkunar og ánægju.  Og við sjáum þessar tilfinningar hjá yngri kynslóðinni og jafnvel tekst okkur sjálfum að skapa með hjálp Guðs þessar góðu tilfinningar.  Við opnum hjörtu okkar fyrir kraftaverkum og meðtökum þau.  Guði er enginn hlutur um megn.  Það sjáum við og heyrum í jólaguðspjallinu.  Og það á einnig við í dag.  En partur af því hvers vegna við fáum stjörnur í augun er að Jesús breytir lífum fólks til hins betra, það lesum við m.a. um í guðspjöllunum.  Allt þetta góða sem Jesús gerði fyrir fólk.  Það er dásamlegt.  Og Guð færir einnig birtu og kraftaverk inn í líf okkar.  Sérð þú skinið frá stjörnunni sem lýsir þína leið?

By |27 desember 2020 10:42|Fréttir|

Lífið og ljósið – Örjólahugleiðing sr. Huldu Hrannar M Helgadóttur

Lífið og ljósið

      Jólatréið sígræna minnir okkur á lífið sem eilíft.  Í Jóhannesarguðspjalli stendur:  “Í Guði var líf og lífið var ljós mannana …  Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.”  (Jóh.1:4,9) 

     Jólin eru komin.  Og við minnumst fæðingar Jesú.  Það var að því er mig minnir ekki fyrr en á 3 öld sem kristnir menn fóru að halda þessa hátíð hátíðlega.  Upprisuhátíðin var og er aðal hátíðin.  Já kristnir menn fagna lífinu á margan hátt.  Enda er hvert líf dýrmætt og einstakt.  Einnig þitt.  Því þurfum við að vernda og meta lífið og stuðla að andlegri sem líkamlegri velferð okkar.  Það gerum við m.a. með því að láta okkur annt um okkur sjálf sem og annað fólk – að gefa og þiggja.

     Já lífið er að finna hjá Guði og lífið er ljós sem bregður birtu sína yfir tilveru okkar.  Guð lýsir upp líf okkar m.a. með orði sínu.  Og bænin er mikilvægt samtal og afl – það hafa rannsóknir sýnt.  Tölum við Guð og opnum hjörtu okkar fyrir því sem hún vill við okkur tala – hvert hún vill leiða okkur og lýsa upp líf okkar.  Það er engin ein formúla t.d. getur höfuðnudd, magnesíum og bros lýst okkur upp og því getur Guð m.a. verið að hvetja okkur til að fara í nudd eða brosa oftar.  En það er gott að hvíla í handleiðslu Guðs og ljósi Guðs.

     Megi ljós Jesú Krists lýsa upp tilveru okkar þessi jól.  Hvítur er litur jólanna.  Gleðieg jól.

By |25 desember 2020 10:38|Fréttir|

Skilaboð á Covid tímum

Elskulegu vinkonur.  Svo sem rétt er og skyldugt höfum við í góðu samráði hver við aðra fellt niður allar samkomur okkar um óákveðinn tíma.  Engar messur, engar mánudagssamverur.  Við tilkynnum þegar úr rætist og við getum aftur hists.  En hvað það verður gaman.  Reynum allar að njóta þessara daga sem gefa okkur tækifæri til að gera eitthvað annað en vanalega eða hvíla okkur bara og horfa út um gluggann.  Við ætlum að lesa Markúsarguðspjall þegar við getum aftur byrjað mánudagssamveruna svo það væri gaman að byrja að lesa það heima.  Biðjum hver fyrir annarri og fyrir öllu okkar frábæra þjóðfélagi.  Kvennakirkjan

By |29 október 2020 21:23|Fréttir|

Ný bók Kvennakirkjunnar – Göngum í hús Guðs

Bók Kvennakirkjunnar Göngum í hús Guðs – guðþjónustan okkar er komin út. Hún er handbók helgihalds Kvennakirkjunnar sem er grundvölluð á lúterskri kvennaguðfræði. Bókin skiptist í tíu kafla: messuform, upphafsorð, þakkir fyrir fyrirgefningu Guðs, trúarjátningar, bænir, kveðjuorð, blessunarorð, máltíð Jesú, bænir og ljóð og söngva. Kvennakirkjan hefur haldið guðþjónustur frá byrjun starfs síns árið 1993 og mótað messuform sitt smátt og smátt. Allar konur Kvennakirkjunnar standa að bókinni og bjóða þeim sem vilja nota hana að eigin vild við messuhald í blessun Guðs. Bókin fæst hjá Kvennakirkjunni og kostar 4000 krónur. Hægt er að panta hana á kvennakirkjan@kvennakirkjan.is og í síma 864 2534.

By |21 október 2020 11:14|Fréttir|

Nú hittumst við aftur í Kvennakirkjunni á mánudögum

Þetta er til þín, kæra vinkona.  

Við hittumst alltaf á mánudögum í stofunum í Þingholtsstræti 17, beint inn af götunni. Eftir kaffi og fyrir kvöldmat. Frá hálf fimm til sex. Okkur langar svo að bjóða þér. Kannski langar þig lika til að koma. Vertu velkomin. Innilega.

Hvað ætlum við að bjóða þér? Friðarstund með kaffitári og samtali. Svo förum við heim með frið og gleði. Stundum syngjum við líka og við biðjum alltaf. Nú ætlum við að lesa Markúsarguðspjall og kvennaguðfræði. Hvernig skyldi það nú passa saman? Alveg dásamlega.

Með kveðjum, Kvennakirkjan

By |1 október 2020 22:18|Fréttir|

Hallfríður Ólafsdóttir

Vinkona okkar Hallfríður Ólafsdóttir lést nú  hinn 4. september.  Hún var Kvennakirkjukona og lék á þverflautuna sína í jólaguðþjónustum okkar svo að tónlist hennar bjó með okkur.  Við þökkum Guði fyrir hana og biðjum fyrir fólkinu hennar.

By |22 september 2020 18:32|Fréttir|

Fyrsta guðþjónusta Kvennakirkjunnar þetta haustið

Fyrsta guðþjónusta Kvennakirkjunnar á þessu hausti verður að þessu sinni í Neskirkju sunnudaginn 27. september kl. 20:00. Sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir prédikar og kvennakirkjukonur leiða söng og lesa bænir. Aðalheiður Þorsteinsdóttir stjórna fallegum sálmasöng. Að athöfninni lokinni drekkum við te og kaffi saman. Þær sem sjá sér fært að koma með meðlæti fá alúðar þakkir.

By |20 september 2020 8:32|Fréttir|

Námskeiðin okkar

Námskeiðin eru á mánudögum frá klukkan hálf fimm til sex í Þingholtsstræti 17

Þau eru samverustundir okkar  til að hittast og tala saman um kvennaguðfræði okkar og okkur sjálfar
og hvað sem við viljum. Við hellum á könnuna og drögum ýmislegt góðgæti upp úr pokum okkar
Þetta eru góðar stundir og dýrmætar
Við erum að lesa yfir bók sem við gefum bráðum út  og heitir Kaffihús vinkvenna Guðs

Mánudaginn 2. mars kemur séra Dalla Þórðardóttir til okkar og talar um spirituality sem er mikið talað um núna

Verum allar velkomnar

By |23 febrúar 2020 22:04|Fréttir|

Afmælisguðþjónusta í Neskirkju

Afmælisguðþjónusta í Neskirkju sunnudagskvöldið 16. febrúar kl. 20.
Séra Hulda Hrönn M. Helgadóttir predidkara. Aðalheiður Þorsteindóttir stjórnar fallegum sálmasöng okkar. Á eftir drekkum við kaffi saman og þær sem sjá sér fært að koma með kaffibrauð fá alúðarþakkir.

By |14 febrúar 2020 11:03|Fréttir|